laugardagur, ágúst 20, 2005

Kabarett

Hér kemur leikdómur.

Eftir að hafa séð margar margar leiksýningar hefur fólk í dag efni á því að gera miklar kröfur til uppfærslna og leikara. Ég bjóst við mjög miklu þegar ég lagði af stað í Íslensku óperuna fyrr í kvöld á leiðinni á Kabarett. Mér finnst alltaf jafn gaman að koma í Óperuna, það er svo mikill sjarmi yfir húsinu.

Sýningin byrjaði mjög skemmtilega á því að dansararnir týndust inn einn af öðrum og byrjuðu að glenna sig og daðra við áhorfendur. Þetta var áður en ljósin slokknuðu. Skemmtileg pæling að láta sýninguna í rauninni bara byrja á smá tíma í staðinn fyrir allt í einu. Ég bjóst því við miklum frumleika og krafti út sýninguna þar sem þetta byrjaði svona vel.

Því miður fann ég þó fyrir því um leið og sýningin í raun byrjaði að það vantaði eitthvað upp á. Vissulega var þetta skemmtileg saga, flottir dansarar, margir góðir leikarar, en það vantaði mikið upp á kraftinn. Eftir smá tíma fór þetta þó batnandi og varð mun betra. Ætli greyin hafi ekki bara þurft að komast aðeins í gírinn..

Söngurinn var oftast nær mjög góður. Ég hef mikið álit á Þórunni Lárusdóttur og brást hún ekki vonum mínum í kvöld. Söngur hennar og leikur var allur hinn besti. Ég hefði þó viljað sjá einhvernveginn meira af henni. Mér fannst of lítið gert úr persónu hennar í leikritinu.

Mestum óþarfa tíma fannst mér vera eytt í sögu gamla fólksins. Vissulega mikilvægur hluti í leikritinu en það hefði getað verið svo miklu styttra og hnitmiðaðra. Söngurinn þeirra var sá lélegasti. Leikurinn var fínn, söngurinn ekki of góður.

Bestur leikara var tvímælalaust Magnús Jónsson sem lék Kabarettstjórann. Mér fannst hann og Þórunn algjörlega halda sýningunni uppi.

Felix Bergsson er ennþá bara Disney persóna fyrir mér. Og jú, Stundin okkar maður. Mér tekst ekki ennþá að taka hann alvarlega. Hann var reyndar fínn í þessari sýningu, betri en ég bjóst við.

Mér fannst þetta mjög skemmtileg sýning en það er auðvitað svo auðvelt að vera bara áhorfandi. Ef ég hefði leikstýrt þessu verki þá hefði ég gert margt öðruvísi.

Semsagt; ég varð ekki beint fyrir vonbrigðum en ég bjóst þó við meiru. Ég skemmti mér alveg konunglega og hefði ekki viljað missa af þessu, þó ég hafi búist við meiru...