laugardagur, febrúar 12, 2005

Foreldri??

Fyrir nokkrum vikum ákvað ég að láta gott af mér leiða og gerast styrktarforeldri barns í Afríku. Í dag fékk ég svo umslag með mynd af barninu mínu og upplýsingar. Það var skrýtið að opna umslagið og vita að þar inni í væri mynd af barni sem ég væri búin að taka eitthvað af ábyrgðinni á.. Ég, foreldri.. Vá.
Barnið mitt er strákur. Hann varð sex ára í október og hann heitir Paulo Maldini Varela Gomes. Hann kemur frá Grænhöfðaeyjum. Mamma hans er dáin og pabbi hans yfirgaf þau systkinin. Furðulegt að geta bara yfirgefið börnin sín en hann var víst ekki í aðstöðu til þess að sjá um þau. Mér finnst samt frábært að hann skuli hafa komið þeim fyrir á góðum stað.
Paulo er voða sætur strákur og honum er lýst sem fjörugum og skemmtilegum strák sem er fljótur að eignast vini og sé mjög náinn systkinum sínum. Mér finnst þetta frábært. Þarna er bara kominn strákur sem ég vissi ekki að væri til í gær en sem mér þykir allt í einu svakalega vænt um í dag. Móðureðlið er kannski ekki langt undan.. Eða hvað?!
Svo eignaðist Una stelpu frá Perú á sama hátt.. Við ætlum að hittast og sýna börnin bráðum.