fimmtudagur, október 18, 2007

Venjulega stilli ég vekjaraklukkuna mína á sirka hálfátta á morgnana. Hún hringir með alveg einstaklega leiðinlegu míííp, míííp, míííp hljóði og ég er yfirleitt fljót að snúsa. Undanfarna morgna hefur þetta hljóð hins vegar náð að lauma sér inn í drauminn minn þannig að ég held alltaf að klukkan sé að tala við mig. Hún segir margt skemmtilegt og ég bíð í raun frekar spennt eftir því þegar 10 mínúturnar eru liðnar og hún heldur áfram að segja mér eitthvað sniðugt. Í morgun gekk þetta á í næstum því klukkutíma. Það skrýtnasta er að þetta er ekki eitthvað einsdæmi heldur hefur þetta gerst mörg síðustu skipti og ég er eiginlega hætt að kippa mér upp við það að klukkan mín skuli tala. Hjálpi mér.
Seinustu nótt dreymdi mig líka að kona sem ég er að vinna með hefði stolið öllum eyrnalokkunum mínum og hálsklút frá mér og hefði svo mætt spígsporandi með allt þýfið, já þýfið segi ég, danglandi úr eyrunum, hljóp svo reglulega fram til að skipta um eyrnalokka af því að hún átti svo marga. Mikið óskaplega vaknaði ég pirruð af þeim draumi.