miðvikudagur, maí 25, 2005

Æskan.. Skemmtileg.

Ég var að taka til uppi í skáp hjá mér til að reyna að koma öllu námsdótinu einhversstaðar fyrir þegar ég rakst á sögubókina mína síðan í 4. bekk í grunnskóla. Ég byrjaði náttúrulega að lesa og skemmti mér hið besta. Ég furða mig þó á ímyndunarafli mínu. Ég virðist hafa glatað þessum hæfileika til að koma öllu sem mér finnst fyndið og áhugavert niður á blað.

Fiktufjölskyldan

Einu sinni var fjölskylda sem var nefnd fiktufjölskyldan. Meðlimir fjölskyldunnar voru: Pabbi fikti fret, Mamma mosi múll, Stóri bróðir 1+0 og Mundi, Litla systir Lilla búmm og Kötturinn Malli músabelgur. Þetta var ósköp srítin fjölskylda en oft á tíðum sá fólk þegar það labbaði framhjá húsinu einhvern í fjölskyldunni vera að fikta við eitthvað. Eitt sinn sá maður sem gekk framhjá, Stóra bróðir 1+0 og Munda vera að fikta með eldspítur. og viti menn hann brenndi sig og kastaði eldspýtum á húsið og þar stóð húsið í ljósum logum og strákurinn stóð háskælandi með bólginn fingur og eins og örskot komu hinir úr fjölskyldunni út pabbi fretandi, mamma étandi mosa litla systir að fikta með sprengju og svo kom kötturinn með mús í kjaftinum og um leið kom slökkviliðið og slökkti eldinn.

Endir

Þess má geta að með þessari sögu límdi ég í bókina afar dramatíska mynd úr Mogganum af slökkviliðsmönnum að berjast við eld í húsi. Fyrir þessa sögu fékk ég: Góð saga og stjörnustimpil frá kennaranum. Ég veit ekki alveg hvað vakti fyrir mér með allar þessar persónur þar sem engin þeirra skiptir neinu máli í sögunni. Eins veit ég ekki hvort Stóri bróðir 1+0 og Mundi séu einn eða tveir menn. Ég skil ekki heldur hvernig það telst vera fikt af ketti að veiða mýs, af konu að borða mosa eða af manni að prumpa.

Ég greinilega skil ekki sjálfa mig sem krakka.