föstudagur, maí 13, 2005

Meira en lítið undarlegt

Mér þykir ótrúlega skrýtið hvað þessi lengsta prófatörn lífs míns hefur verið auðveld. Ég furða mig á því á hverjum einasta degi en ég hef ekki ennþá upplifað þennan týpíska prófapirring og hef varla upplifað að hugsa um hvað allt annað væri skemmtilegra en að læra.
Ég hugsa að ástæðurnar fyrir þessu jafnaðargeði mínu sé þessi langi andlegi undirbúningstími. Ég er búin að kvíða fyrir þessum prófum í fjögur ár og er örugglega, ómeðvitað, búin að sætta mig að ég þurfi að yfirstíga þetta til að geta byrjað á einhverju nýju. Einnig hefur hugsunin um útskriftina og sumarið framundan haldið mér gangandi lengi. Ég sé útskriftina fyrir mér á hverjum degi og er afar stolt af sjálfri mér að vera að klára þessi blessuðu stúdentspróf. Að auki held ég að hugsunin um Danmerkurferðina skemmi ekki fyrir en mér til mikillar gleði ákváðum við Ómar að fara út þremur dögum á undan kórnum og slappa af. Við fáum meir að segja ókeypis gistingu hjá bróður mínum... Það er sjaldan sem maður hefur sambönd en núna koma þau að góðum notum.
Nú eru svo allt í einu 10 próf búin af 12 og ég tek varla eftir að ég sé í prófum. Þetta er, án gríns, búið að vera skemmtilegt tímabil. Alveg magnað.

Hvað eigum við Ómar svo að gera í Kaupmannahöfn? Hugmyndir óskast.