fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Fallegur dagur

Heimurinn var svo fallegur í dag. Það var ískuldanum að þakka að allt var tært og himinninn heiðskír. Snjórinn gerir allt svo hreint og bjart. Ég sat inni í stofu heima og út um gluggann sá ég glitta í sól í smástund áður en hún settist á bakvið Lágafellið. Þegar ég gekk út á götu sá ég Esjuna baðaða í sól, það glitraði hreinlega á hana. Það eru tvö há tré í garði hinum megin við götuna og einmitt í þessum tveimur trjám sátu örugglega um 100 fuglar, hver grein var þétt setin. Það voru læti í þeim, fuglalæti. Ég fékk sting í lungun þegar ég gekk út í bílskúr og mér var rosalega kalt en það eina sem ég hugsaði var ,,Vá, hvað heimurinn getur verið fallegur.. " Ég vildi að það væru fleiri svona dagar.